Færsluflokkur: Bækur

Hin hvíta borg og upphaf amerískra fjöldamorðingja

Það hefur ekki gerst oft á síðustu árum að ég hef orðið gagntekinn af bók. Einhverra hluta vegna er eins og oflestur þurra fræðibóka hafi minnkað lyst mína á góðum bókum og orðið þess valdandi að maður halli sér frekar að fánýtu vefráfi. Síðustu árin hafa verið rýr er kemur að bókum og nokkrir dæmigerðir titlar á þessu heimili verið Intuitive Biostatistics, Monitoring the Health of Populations og Epidemiology - Beyond the Basics. Sem sagt enginn skemmtilestur hér á bæ. Ég held svei mér þá að ég hafi ekki hrifist af lestri síðan ég spændi af ofsa gegnum bækur Mark Kurlansky, Salt: A World History, Cod, og The Basque History of the World: The Story of a Nation.

Fór á ráðstefnu í Flórída um helgina og er ég hljóp um flugvöllinn í Minneapolis ásamt samstarfsmanni mínum, þá stoppaði sá skyndilega og sagði: "Maður fer aldrei á fagidjótaráðstefnu nema að fyrst kaupi maður sér góða bók til geðheilsuverndar". Eftir að hafa lítið séð nema fagbækur s.l. árið þá þraut mig vitrænt örendi og enga fann ég bókina. Stundi mæðulega og leit á ferðafélagann og sagðist sennilega neyðast til að lesa tímamótagrein Sackett um Bias in Analytic Research frá 1977 í flugvélinni því enga fyndi ég bókina. Hann hugsaði djúpt, klóraði sér og sagði: "Bíddu andartak!" Dró mig inn í bókabúð, rauk beint í hillu, reif út bók og henti í mig og sagði: "Lestu þessa!". 

Bókin var The Devil in the White City: Murder, Magic, and Madness at the Fair that Changed America eftir Erik Larson.0-375-72560-1 Þetta er kynngimögnuð lesning og ekki  reyndist mér unnt að leggja hana frá mér fyrr en allar ríflega 400  blaðsíðurnar  voru að  baki og hlaut bókin mun meiri athygli en ráðstefnan sjálf. Umhverfið er Chicago í lok 19. aldarinnar og segja má að bókin snúist um tvo merkismenn. Annar var framsýnn og djarfur arkítekt, Daniel Hudson Burnham, driffjöður og einskonar framkvæmdarstjóri Heimssýningarinnar í Chicago árið 1893. Burnham þessi er m.a. þekktur fyrir hönnun Flatiron byggingarinnar í New York sem margir þekkja. Heimssýningin og undirbúningurinn að baki henni er í raun leiksvið bókarinnar og er með ólíkindum að þess tíma mönnum með þess tíma tækni hafi tekist að leysa þetta gríðarlega verkefni eins vel og raun bar vitni þó ófáir vesalingarnir hafi látist við framkvæmdina. Hinn skuggalegri og dekkri helmingur bókarinnar er hinn skelfilegi morðingi og bona fide psýkópati, H.H. Holmes eða öðru nafni Herman Webster Mudgett sem að mati sumra er hinn fyrsti raðmorðingi í sögu Bandaríkjanna. Ekki er vitað til þess að Burnham og Holmes hafi nokkurn tíman hist þó að Heimssýningin hafi spilað stóra rullu í lífi beggja þessara manna. Annars eru reyndar kynntir til sögunnar fleiri athyglisverðir karakterar, s.s. hinn heilsuveili en augljóslega hæfileikaríki hugsjónamaður og landslagsarkitekt Frederick Law Olmsted og verkfræðingurinn George Washington Gale Ferris Jr., sá hinn sami og hannaði parísarhjólið til þess að slá út Eiffel turninn sem var djásnið í kórónu Parísarsýningarinnar 1898 en mottóið var "to out-Eiffel Eiffel himself".

Frábær bók í alla staði og þess virði að eiga. 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband