Færsluflokkur: Dægurmál

Rödd þagnar...

Konungur bíómyndatraileranna er genginn fyrir ætternisstapa. Don LaFontaine lést í vikunni en hann er kannski ekki mörgum kunnur, að minnsta kosti er nafnið ekki kunnuglegt. LaFontaine hefur hafði hins vegar rödd sem margir þekkja vel. Rödd sem kom fyrir á aragrúa kvikmyndakynninga eða movie trailers.

Ég hafði ekki hugmynd um hver þetta var þegar National Public Radio for að ræða um hann í vikunni. Svo spiluðu þeir klippu með röddinni og maður þekkti hana um leið...

 

Svo er hér ein brilljant Geico auglýsing...


Google, Jarðarstund og rafmagnsþorsti...

Skemmtilegur tvískinnungur hjá Google í dag. Svört forsíða og allt. Í tilefni Jarðarstundar eða Earth Hour þar sem jarðarbúar eru hvattir til að slökkva á óþarfa ljósum og þessháttar til að spara orku.

Google sem slíkt er nefnilega óseðjandi rafmagnshít. Hélduð þið kannski að það kostaði ekkert að gúggla hitt og þetta. Auðvitað er vonlaust að reka netleitarmaskínu sem Google án þess að brúka rafmagn en það bara skýtur svo skemmtilega skökku við að þeir noti nákvæmlega þetta atriði sem PR stunt... 


Minningargrein um plastpoka...

Plastpokar eru óþverri. Allavega þessir næfurþunnu sem maður fær hér vestra. Þeir brotna illa niður í náttúrunni og í stað þess að brotna niður (og eyðast) þá molna þeir í æ minni agnir sem berast til sjávar og þaðan yfir í lífríkið. Mér er sagt að stór og reyndar stækkandi flekkur í Kyrrahafinu sé í raun súpa plastpokaagna sem sé á góðri leið með að gera út um lífríkið. Nú veit ég ekki hvort seigir íslenskir bónuspokar hagi sér eins í náttúrunni en vel má vera að svo sé. Í öllu falli eru þeir mengun. Sumir hafa áætlað að nú þegar hafi Bandaríkjamenn einir brúkað yfir 30 milljarða af plastpokum þetta árið, og enn er bara janúar...

Nú hafa vissar gæðabúðir í mínu fyrrum nágrannahéraði sagt plastpokum stríð á hendur. Um er að ræða nokkrar búðir innan Minneapolis-St. Paul svæðisins þ.m.t. gourmetbúðina Whole Foods og Lunds og Byerlys hyggjast feta í fótspor þeirra. En á ég þó eftir að sjá risa sem Walmart, HyVee og Cub Foods gera slíkt hið sama. Sumar borgir, þ.m.t. San Francisco munu hafa gert slíka poka útlæga og er það vel. Það er hverjum þeim er dvalið hefur í BNA ljóst að það þarf meiriháttar hugarfarsbreytingu til að takist að losa sig við plastpokana. Einhvers staðar verður þó að byrja og nú má sjá mig og mína skjótast búð úr búð með margnota taupoka á öxlinni.

Walmartspoki...


911 og kærulausir feður...

Það var skemmtileg uppákoma hér á F Stræti í gærkveldi. Ég var uppi á lofti að leika við dótturina sem nýlega er orðin eins árs og grallari hinn mesti. Konan niðri að bardúsa eitthvað og klukkan að verða níu. Skyndilega er dyrabjöllunni hringt og konan fer til dyra. Þar stendur þungbrýndur laganna þjónn sem stígur inn í forstofuna og fer að litast um (að sjálfsögðu var allt á rúi og stúi enda verið að taka niður jólin á þessu heimili...). Löggi spyr hvort aðrir séu í heimili en konan og í kjölfarið erum við feðginin kölluð niður til að hitta laganna vörð. Það kemur upp úr kafinu að símtal barst til 911 (sem er það sama og 112 heima) og er símaverðir svöruðu þá heyrðist ekkert nema más og skruðningar. Löggan því gerð út í snarhasti að tékka á þessu. Það var ekki lítið sem ég varð vandræðalegur því að svona 10 mínútum áður hafði ég fylgst með dótturinni fikta við þráðlausa símann heima og gott ef ég hvatti hana ekki með ráðum og dáð enda að mínu viti gott að börn kynnist tækni nútímans sem yngst. Það kom upp úr kafinu að sú stutta hafði hringt á Neyðarlínuna og másað eitthvað í símann. Það var ekki lítið sem ég varð vandræðalegur fyrir framan lögregluþjóninn og hóf ég mikla afsökunarræðu. Löggi brosti í kampinn og sagði "don't worry, this happens all the time" og kvaddi hann okkur með virktum.

Það þarf ekki að taka það fram að hér eftir fá börn ekki að fikta með síma á þessu heimili... 


Í hvert sinn sem þú skráir þig inn á Facebook þá gætirðu verið þáttakandi í rannsókn...

Ég verð nú seint talinn dyggur Facebook aðdáandi, til þess eru of fáar klukkustundir í sólarhringnum en ég verð að viðurkenna að fyrirbærið er bráðsnjallt. Sá í blöðunum um daginn að Facebook er gullnáma fræðinga þeirra er stúdera mannsins hegðun. Meðal annars "njósna" félagsfræðingar um nemendur ónefnds skóla á Austurströndinni og telja sig þannig fá einstaka sýn á tengslamyndun ungmenna ásamt mörgu öðru því er tíundað er í greininni. Mér hefur oft dottið það sama í hug með íslenska netmiðla, þ.e.a.s. að þar reyndist morg matarholan varðandi spennandi rannsóknarverkefni og sennilega eru íslenskir fræðimenn með puttana í því nú þegar.

Skyldi vera fylgst kerfisbundið með oss hér á moggabloggi...?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband