Hlýðninámskeið fyrir verðandi ríkisstarfsmenn...

Já, það er ekki hlaupið að því að gerast ríkisstarfsmaður í henni Ameríku. Nú vill svo til að vegna hinnar sérstaklega óheppilegu J-1 vegabréfsáritunar minnar þá er ég upp á alríkið (eða væntanlega almættið) kominn svo ég geti starfað fyrir háskólann minn hér ytra. Samkomulag náðist og ég mun inna af hendi hlutastörf í þágu ríkisins í 3-4 ár en þeir munu í staðinn útvega mér hið eftirsótta græna kort. Nú er það ekki svo að ég sé alls ókunnugur því að starfa fyrir ríkið en slíkt hið sama gerði ég fyrir allmörgum árum. Það var þó námsstaða og ekki alveg sambærileg.

Nú er ég semsagt orðinn fullgildur ríkisstarfsmaður í 70% vinnu við Department of Veterans Affairs og í 30% starfi við minn gamla háskóla, University of Iowa. Frekar gott mál þó ég segi sjálfur frá.

Nú þarf ég að læra að haga mér sem sannur ríkisstarfsmaður og til þess að það takist er mér skylt að taka 2ja daga kúrs, svona Ríkisstarfsmaður 101 kúrs. Vegna þessa varð ég að horfa á endalaus myndbönd sem tíunduðu hvað gott væri að vinna fyrir ríkið og sýndu þess á milli blaktandi ameríska fána. Svo var mér sagt hvað ekki mætti gera. Til dæmis má ég helst ekki vera fúll í vinnunni því það ber vott um lélegan starfsmóral. Svo má ég ekki klípa konur (og sennilega ekki menn heldur) og ekki vera klúr við neinn. Þetta er mér þó létt því bæði er gaman í vinnunni og svo hefi ég aldrei fengið neitt útúr því að klípa fólk og er þess utan kurteis að upplagi. Því passa ég vel inn. Það breytir því ekki að það er leiðinlegt að sitja í 16 klst og hlusta á eitthvað raus um hluti sem ættu að vera öllum eðlislægir. 

Það bjargaði þó miklu að Kings of Leon voru með konsert í bænum og ég gat farið og þeytt flösu með ungviðinu og nú suðar í eyrunum og hljóðhimnurnar lafa út úr eyrunum eins og smokkar. Rokkskaði var þetta kallað meðal okkar í gamla daga, þ.e.a.s. tap á hátíðniheyrn. Góður konsert en ég verð þó að taka undir með Wikipediu þegar hún lýsir söngstíl Caleb Followill forsprakka bandsins: He is known for his unique vocals, which are often incomprehensible.

Það var nú allt sem ég hafði að segja... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband