Stuttmynd um morð...

Ég virðist ekki sá eini er fylltist hryllingi yfir aftöku Saddams í blálokin á síðasta ári. Er annars ákaflega mikið andsnúinn dauðarefsingum og hreint enginn aðdáandi Saddams sem var augljóslega var forað hið mesta. Eins og alþjóð er orðið kunnugt, þökk sé farsímum (sem ekki í fyrsta sinni skipa veigamikinn sess í fréttaflutningi af voðaverkum í Írak), þá snerist hin "hlutlausa" aftaka upp í einskonar uppjör stríðandi fylkinga múslima. Eitthvað munu írakskir vera að reyna að afsaka klúðrið en ólíklegt að það takist. 

Nú horfi ég sjaldan á sjónvarp en gerði undantekningu þennan örlagaríka dag enda "prime time" hjá mér fyrir vestan. Saddam gekk að gálganum og á meðan biðu blóðþyrstir sjónvarpsáhorfendur fyrir framan skjáinn. Með ákveðnu millibili fann Anderson Cooper sig knúinn til að láta okkur vita að yfir hann rigndi t-póstum þar sem áhorfendur létu í ljós að þá þyrsti í blóð. Í myndir af Saddam. Minna fór fyrir því að við fengjum að vita af innihaldi annarra t-pósta en þeirra er heimtuðu myndir. Mundi þá af hverju ég hef ekki horft mikið á sjónvarp sl. árin. Sagði ekki einhvers staðar að það yrði að færa lýðnum brauð og leika?

Las góða bloggfærslu í dag. Lesturinn minnti mig á fimmtu boðorðastuttmynd Kiezlowskis, stutta mynd um morð. Það er kynngimögnuð mynd um aftöku í boði ríkisins og án trúarbragðaskætings. Hinn ólánssami Jacek drepur leigubílsstjóra á hrottafenginn hátt og geldur fyrir það með lífi sínu. Vart má á milli sjá hvort morðið er óhugnanlegra en það var eitthvað svo ískalt og ópersónulegt við aftökuna sem sendi hroll niður bakið. Ómissandi mynd hverjum þeim er unnir kvikmyndum og hefur áhuga á dauðarefsingum. Annars sagði mér vinur minn pólskur að á námsárum hans í Varsjá voru stuttmyndir Kieslowskis notaðar sem hvati í margvíslegum umræðum um siðfræði. Fyrst var glápt á mynd (og væntanlega drukkið Zubrówka til að liðka málbeinin) og svo upphófust umræður. Það var ekki svona skemmtilegt í mínu háskólanámi - enda kannski ekki við því að búast í minni deild. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband