17.1.2007 | 03:58
Um manngæsku Gamla Nóa...
Var að syngja fyrir dótturina í kveld. Söng Gamla Nóa og sú stutta lét útburðarvæl föður síns lítið á sig fá en vonaði sennilega að móðir hennar ætti næsta leik.
Var að spá í karaktereinkennum Gamla Nóa og hverjum hann hafi ekki verið velviljaður.
Gamli Nói, gamli Nói
Guðhræddur og vís
mikils háttar maður
mörgum velviljaður
Spurningin er því: Hverjir voru ekki í náðinni hjá Nóa?
Þar eð dóttirin er einungis fimm vikna slapp ég fyrir horn og þurfti ekki að útskýra þessa setningu...
Sennilega krefst hún svara einn dagin...
Athugasemdir
Svona getur formið fjötrað andann, kæra Katanesdýr. Stuðlarnir krefjast þess að höfuðstafurinn sé emm.
Leyfi mér að leggja fram breytingartillögu þar sem bæði andi og form njóta sín:
Gamli Nói, gamli Nói, guðhræddur og vís. Mikils háttar maður, megavelviljaður ...
Hér eru tekin af öll tvímæli. Öllu meiri velvilji mun vandfundinn í íslenskum bókmenntum.
Minn söngferill var stuttur. Þar koma Sigrún þáverandi eiginkona mín og Erla dóttir okkar til sögunnar. Ekki þurfti ég að seilast um hurð til lokunnar í leit að textum, sbr. hið blíða ljóð Jóns Thoroddsens frá Reykhólum:
Sofðu, mín Sigrún
og sofðu nú rótt!
Guð faðir gefi
góða þér nótt!
En Sigrún sagði eitthvað á þessa leið: Elsku besti hættu þessu, ég er að reyna að sofna.
Eða þá hið fagra vöggukvæði Stefáns frá Hvítadal:
Erla, góða Erla.
Ég á að vagga þér.
Svíf þú inn í svefninn
í söng frá vörum mér.
En Sigrún sagði eitthvað á þessa leið: Æ, Hlynur minn, ég er að reyna að svæfa barnið.
Og þar sem ég er tillitssamur maður, þá hætti ég að mestu að syngja ljóð en fór að yrkja þau í staðinn. Og - einnig vegna þess að ég er tillitssamur maður, þá hefur fátt af þeim komið fyrir almenningssjónir.
Hlynur Þór Magnússon, 17.1.2007 kl. 06:22
Þetta bjargaði deginum. Það er huggun að vita að fleiri falin talent séu falin þarna úti.
Þorvarður Ragnar Hálfdanarson, 18.1.2007 kl. 01:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.