Af gruggugum fótaböðum og óhreinum innyflum

Allt er nú til. Sá í fréttunum að nú telja einhverjir sig getað losað eiturefni út um fótaskinn, svo fremi maður láti af hendi rakna nokkurt fé til kaupa þá þartilgerðu fótabaðstæki (sem merkilega mikið líkist hinum sívinsælu fótanuddtækjum sem finna mátti á hverju íslensku heimili) og einhvers konar efnasulli til að setja í baðið. Vafalítið hafa farið fram á þessu góðar og vandaðar rannsóknir þó fréttamönnum hafi láðst að geta þess í fréttatíma. Ég bíð spenntur eftir að fylgjendur þessarar orma- og eiturefnahreinsunar leiðrétti þetta og pósti lista sem tíundar þær rannsóknir sem hafa farið fram á þessu svo vér vantrúaðir getum sannfærst...

Og svo eru það ristilskolanirnar. Allra meina bót er mér sagt. Sennilega er einnig um að ræða gnótt vísindalegra rannsókna sem liggja að baki þeim. Eða kannski einhverjar duldar langanir úr smiðju Freuds. Langanir sem útgefandi hans treysti sér ekki til að setja á prent. Annars var svona garnaskolunaræði meðal þotuliðsins, þ.e. leikara og þessháttar hér um árið. Enda er það allt sérlega fallegt og vel hreinsað fólk nú orðið. Geymir sennilega ekki sama garnagroms og við hin. "Hátt enni, beint nef. Heilar tennur, fæ aldrei kvef" eins og skáldið kvað. Heilsan kemur sennilega ekki frá góðu mataræði, reglulegri hreyfingu og góðum genum, heldur frá hreinum ristli. Heilbrigð sál í hreinum ristli, ekki satt?

Annars hitti ég svona garnaskolunarkall um árið. Hann fékk samt krabba. Fúlt, maður. Sennilega hafa vinnufélagarnir ekki hreinsað sig sem skyldi og hleypt út daunillum eiturgufum í viðurvist hans. Hann axlaði svo byrðar náungans. Góðmenni með hreinan ristil - en óheppinn.

Og það var nú allt sem ég vildi segja... 

 Þetta epli er hreint - enda fór það um nýhreinsaðan ristil...

 

 

 

 

 

 

 

 

Hreint epli - hreinn ristill... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Bloggaði í snatri eitthvað um þetta að loknum Kastljósþættinum. Kunni samt ekki við að segja þar allt sem ég hugsaði, eins og t.d. þetta: Jónína Benediktsdóttir fór flatt í bísnissnum sínum en kemur nú aftur bakdyramegin ...

Hlynur Þór Magnússon, 25.1.2007 kl. 02:44

2 Smámynd: Þorvarður Ragnar Hálfdanarson

Jamm - maður hugsaði margt sem ekki var hægt að segja...

Þorvarður Ragnar Hálfdanarson, 25.1.2007 kl. 02:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband