10.2.2007 | 17:50
Bók vikunnar - The Elements of Style
Það er ekki auðvelt að skrifa læsilegan texta. Ekki einu sinni á íslensku þó maður sé Íslendingur. Lítið var lagt upp úr þessháttar þekkingu og þjálfun á mínum grunn- og menntaskólaárum og hefur það verið auðsætt í skrifum mínum.
Hvað þá er maður fer að skrifa á ensku. Eitt er að spjalla um Minnesótafrostið og fótbolta þegar beðið er eftir kaffinu á Starbucks. Það er létt. Verra er að skrifa eitthvað sem mun koma fyrir augu þúsunda manna (og kvenna). Þúsunda gagnrýninna manna. Fyrsta skiptið er ég skrifaði almennilegt bréf upp á enska tungu, var er ég sótti um háskólavist hér vestra. Ferilskráin var auðveld en öllu erfiðara reyndist að hósta upp s.k. Personal Statement (PS) en það er eins konar yfirlýsing um hvað maður sé guðdómlega snjall og mikill efniviður og af hverju það væri óðs manns æði að neita manni um skólavist.
Mér fanns sem ég hefði skilað góðu dagsverki að loknum skriftum á mínu PS. Allavega komst ég inn. Fann svo ritsmíðina um dagin og þvílík hörmung! Undarlegt að maður komst að. Kannski vildu þeir sjá svona mann er ritaði svona þvælu og sáu svo aumur á mér og hleyptu mér inn fyrst ég var kominn alla leið inn á sléttuna.
Nú sit ég og skrifa. Skrifa þurrar vísindagreinar en í slíkum skrifum er ekki rúm fyrir húmor og helst skyldi nota knappan og beinskeyttan stíl. Erfitt mál. Sérstaklega útlendingum með litla endógen tungumálahæfileika. Ritstjórar blaða eru miskunnarlausir. Ef fyrstu setningarnar eru þokukenndar og lítt grípandi, þá fer handritið í tunnuna. Hvað er til ráða? Lítill bæklingur, ritaður fyrir nær öld síðan (allavega fyrstu drögin). The Elements of Style eftir Strunk og White. Hreint frábær bók og hverrar krónu virði. Eins og sagt er, algert möst have. Fimm stjörnur.
Þú er bara að vona að innihald greinanna sé áhugavert og ritstjórar í góðu skapi...
Athugasemdir
Ég er þeirrar skoðunar að stíllinn komi af sjálfu sér hafi menn eitthvað að segja neðan úr brunni ástríðna sinna. Stíl sé ekki hægt að kenna, því þá er maður að þrongva sér í flíkur annara. Ef sleppt er fullkomnunaráráttu og ótta við gagnrýni þá öðlast textinn frelsi. Svo má alltaf laga orðalag og hrynjandi eftirá. Lesa aftur og aftur, upphátt og í hljóði og tálga til þar til fleyið er orðið nægilega straumlínulaga.
Jón Steinar Ragnarsson, 10.2.2007 kl. 21:52
Mikið til í því en ef þú vilt fá þinn texta birtann í fagtímaritum þá verður maður oft að þröngva sér í flíkur annarra. Yfirleitt flíkur ritstjóranna. Það vill svo til að sérsniðnar flíkur Strunk of White falla nokkuð vel að mjöðmum flestra ritstjóra. Baðst ekki heimsspekingurinn Blaise Pascal afsökunar á því hvað hann hefði ritað langt bréf. Hann hafði nefnilega ekki tíma til að skrifa styttra bréf. Stutt er of gott. Brevity is the soul of wit.
Hins vegar væri leiðinlegt að lesa ljóð sem skrifað væri í þurrum fræðimannastíl.
Þorvarður Ragnar Hálfdanarson, 10.2.2007 kl. 22:32
Gerðu það birtu PSið þitt á síðuna, það gefur örugglega innsýn í manneskjuna Þorvarður sem hefur líka tilfinningar og næmi eins og við hin
Sjáðu mig
Jóhann R Guðmundsson, 15.2.2007 kl. 22:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.