17.4.2007 | 04:01
Blacksburg og byssueignarlögin í Virginíu...
Maður spyr sig hversu miklu máli það skiptir að hafa strangar reglur varðandi byssueign og verslun með skotvopn er kemur að fjöldamorðum. Vissulega hafa fjöldamorð á almennum borgurum þar sem skotvopn koma við sögu, átt sér stað utan Bandaríkjanna s.s. í Skotlandi. Það er þó hverjum heilskyggnum manni ljóst að sé miðað við hina frægu höfðatölu þá standa Bandaríkjamenn öðrum þjóðum framar í þessari iðju. Það vill einnig til að lög um byssueign og verslun með skotvopn er frekar lin í Bandaríkjunum og verður vafalítið ekki um að ræða breytingu þar á nema að til komi hugarfarsbreyting þjóðarinnar og skerðing á völdum National Rifle Association sem hefur lengi átt frekar kósý samband við Repúblíkana. Ekki svo að skilja að Demókratar hafi staðið sig nokkuð betur.
Hvenig skildi reglugerðum um byssueign háttað í Virginíu? Ef eitthvað er að marka stategunlaws.org, þá er þar víða pottur brotinn og hefur Virginíuríki verið gefin einkuninn C-mínus á þeim vettvangnum. C-mínus hefur yfir höfuð ekki þótt góð einkunn (en kannski ekki svo slæm því ríki eins og Alabama og Kentucky eru með F og almennt eru lögin lin m.a. hjá mér í Minnesóta...). Til dæmis þarf ekki byssuleyfi, engrar þjálfunar/námskeiða er krafist, ekki eru takmörk á sölu á assault rifles (heimilistæki eins og Uzi og AK47), einstökum borgum er meinað að hafa strangari viðurlög varðandi burð og eign skotvopna, skráningu skotvopnaviðskipta er verulega ábótavant og eigendum skotvopna er ekki skylt að skrá hólka sína hjá yfirvöldum. Svona mætti lengi telja. Nú veit ég vel að byssur drepa ekki menn einar sér. Menn með byssur drepa hins vegar aðra menn og ef auðvelt er að komast yfir hólk, þá gefur auga leið að fleiri rugludallar hafa skotvopn undir höndum.
Það er vonandi að þessi harmleikur veki fólk til umhugsunar og ýti undir harðari byssulöggjöf. Það er ekki verið að tala um að banna byssur. Mér er að meinalausu að fólk eigi veiðivopn rétt eins og faðir minn átti er ég var gutti. Ég sé hins vegar ekki þörfina á að menn eigi hríðskotariffla og hlaupvíðar handpístólur. Ég sé heldur ekki hvað stendur í vegi fyrir því að hver einasta byssa sé skráð í hvert einasta skipti sem hún er seld á opnum markaði.
Hvað varðar ræðu forsetaamlóðans þá sá ég hana ekki en mun gleðjast yfir því ef hún var góð. Grunar samt að hann hafi sleppt hinu einstaka tækifæri til að boða hertari löggjöf. Annars vakti athygli mína yfirlýsing talsmanns forsetans fyrr í dag um að embættið væri á móti takmörkunum á skotvopnaeign en hvetti til ábyrgrar notkunar slíkra vopna. Yeah, right! Eins og það hafi virkað fram að þessu.
Athugasemdir
Ég nenni eiginlega ekki að rökstyðja það, að í þessu efni sem ýmsum öðrum virðist ég á mjög svipaðri skoðanalínu og bloggari hér. Leyfi mér e.t.v. þess vegna að spyrja hann álits á skrifum mínum í dag um heimsókn á vegum Alþingis til Kaliforníu - sjá þar einnig athugasemdadálkinn. Vil taka af öll tvímæli: Hér er ég ekki að fiska eftir komplímentum heldur skynsamlegri umsögn um þetta mál og skynsamlegri gagnrýni á það sem ég setti fram og framsetningu þess.
Hlynur Þór Magnússon, 17.4.2007 kl. 22:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.