The Northwest Passage...

The Northwest Passage er sjóleiðin norður fyrir Kanada og hefur leiðin sú verið illfær vegna hafíss. Það kann þó að vera að breytast þar sem jarðarhlýnun bræðir ísinn og opnar áður lokaðar sjóleiðir. Þetta hljómar kannski ekki svo spennandi en það er þó margt sem hangir á spýtunni. Sæfarar fyrri alda reyndu lengi að komast norður fyrir Kanada og hugsuðu sér gott til glóðarinnar ef tækist að opna nýja verslunarleið til Asíu. Þetta var Bretum sérstaklega hugleikið og gerðu þeir út af örkinni nokkra hugaða sæfara en allt kom fyrir ekki. Það var ekki fyrr en Roald Amundsen smaug þarna í gegn á gömlu síldarskútunni Gjøa árið 1906. Síðar reyndu menn að lauma þarna í gegn ýmsum fleyjum með misjöfnum árangri en ekki virtist leiðin ætla að verða fýsileg til flutninga svona almennt. Reyndar fór þarna um barkur einn mikill árið 1969 en það var hvorki meira né mina en SS Manhattan sem var eitt stærsta skip sem nokkru sinni hefur siglt undir Bandarískum fána. Þrátt fyrir að skipið væri stórt og knúið 43.000 hestafla vél þá þurfti það hjálp kanadískra ísbrjóta til að komast leiðar sinnar. Þetta þótti ekki hagkvæm eða áreiðanleg leið til að flytja olíu frá Alaska og leiddi m.a. til þess að Alaska pípulögnin var byggð.

Nú er Northwest Passage aftur komin í fréttirnar og er það vegna bráðnunar íssins og þeirrar staðreyndar að Kanadamenn gera tilkall til svæðisins en Bandaríkjamenn eru því ekki allsendis sammála og reyndar er svo farið um fleiri þjóðir sem segja að um sé að ræða s.k. "international strait" sem að Kanadamönnum sé ekki heimilt að stjórna nema að takmörkuðu leyti. Kanadamenn vilja ekki gefa neitt eftir og haft var eftir Stephen Harper forsætisráðherra að:

"Canada has a choice when it comes to defending our sovereignty over the Arctic. We either use it or lose it. And make no mistake, this Government intends to use it. Because Canada’s Arctic is central to our national identity as a northern nation. It is part of our history. And it represents the tremendous potential of our future."

Ekki er víst að Bandaríkjamenn vilji una þessum málalokum og það skyldi þó ekki vera að þeir snúi sér að Kanada þegar þeir eru búnir að gefast upp í Írak...

Frægðarför SS Manhattan


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bendi þeim, sem eru að hugsa um þennan fréttaflutning á að lesa blogg Einars Sveinbjörnssonar, veðurfræðings, á bloggsíðu hans um þetta efni. Það er óhætt að trúa okkar íslensku vísindamönnum, sem standa báðum fótum á jörðinni.

Uglan á kvistinum (IP-tala skráð) 16.9.2007 kl. 08:51

2 Smámynd: Þorvarður Ragnar Hálfdanarson

Hef lesið hann Einar. Rétt er það sem hann bendir á að ekki muni ísinn hverfa á ári eða tveimur og kannski aldrei og vissulega er Norðvesturleiðin ekki greiðfær og mun sennilega ekki verða í bráð. Þó er sem mig minni að hafa lesið grein í Nature ekki svo alls fyrir löngu sem spáði því að leiðin yrði greiðfær innan 50-60 ára héldi hlýnun áfram á sama hraða.

Það spaugilega við þetta allt er hins vegar það hversu hressilega þetta  hefur hrært við Kanada- og Bandaríkjamönnum og hversu mikið meiri athygli svæðið hefur fengið á sl. árum.

Þorvarður Ragnar Hálfdanarson, 16.9.2007 kl. 17:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband