3.10.2007 | 03:11
Twister...
Ég var rétt kominn heim úr vinnunni og varla sestur með tæplega 10 mánaða dóttur til daglegs fíflagangs þegar flautur hverfisins byrjuðu að ýla. Mér og Steinunni Eddu fannst þetta frekar sniðugt og fórum út að glugga til að sjá hvaðan hávaðinn kæmi en vorum snarlega reknir niður í kjallara af þeirri einu sem var með viti á heimilinu. Þetta voru nefnilega veðurflauturnar með s.k. Tornado Warning. Þetta er nefnilega nokkuð sem maður tekur alvarlega, sérstaklega í ljósi þess að ekki er nema rúmt ár síðan slíkur hvirfilvindur tók hús á borgarbúum, og já, tók hús í bókstaflegri merkingu því sum þeirra fuku um miðbæinn í formi spreks og þakplatna. Tornado Warning þýðir nefnilega að sést hefur til skýstrokks í nágrenninu (annað hvort berum augum eða með mælitækjum) og þá eiga allir að fara ofan í kjallara. Þar sátum við reyndar öll þrjú í rökkrinu og horfðum á bláleita glampana af eldingunum sem bárust inn um kjallaragluggana og hlustuðum á Iowa Public Radio sem spilaði Paganini milli tilkynningana frá National Weather Service sem hafa þennan skemmtilega langbylgjuheimsendahljóm. Húsið gamla stóð þetta af sér (það kom enginn tornado...) eins og önnur veður þau 107 ár sem það hefur staðið á horninu á F Stræti og því fjórða.
Heimsendi var því frestað fram að næsta heimsendi...
Hverjar eru jú líkurnar á að tveir skýstrokkar rústi sama smábænum tvö ár í röð...?
Athugasemdir
úff þetta er alveg ferlega skrämmande, líka e-ð svo uppörvandi að hlusta á geðveikan Paganini í gjörningaveðri, svona náttúruspellvirki höfum við aldrei í Svíþjóð, alltof öfgafullt e-ð, langt frá meðalmennskunni.
Jóhann R Guðmundsson, 9.10.2007 kl. 15:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.