2.1.2007 | 02:31
Upphafsblogg
Jamm og já, á þá að fara að blogga. Maður er nú sosum búinn að velta þessu fyrir sér um skeið og nú skal látið reyna á það. Sennilega er þetta tímaeyðsla hin versta. Ætli megi þó ekki líta á þetta sem þjónustu við ættingja uppá klakanum, svona leið til að miðla upplýsingum um familíuna hér vestra og spara símagjöld. Kannski getur maður og póstað myndum af henni Steinunni Eddu, nýjasta fjöskyldumeðlimnum. Steinunn Edda er skýr og skemmtileg stúlka, enda lík móður sinni. Frá föður sínum hefur hún fengið smávægilegar fæðingargjafir s.s. flatan fót og stutta putta. Misjafnlega deilist nú erfðaefnið. Mér segja fróðir menn að mæður eigi erfðafræðilega eilítið meira í börnunum vegna erfðaefnis hvatbera sem einungis kemur frá móður. Enn lét maður í minni pokann og er sá pokinn nú farinn að verða ansi stór.
Í dag var farið í nýárslabbitúr og labbað með lækjarsprænu hverfisins. Ekki er hægt að segja að hverfisbúar hafi tekið upp þann rammíslenska sið að ganga sér til hressingar og heilsubótar á Jóla- og Nýársdegi. Þar var fátt um mannin utan einmana hlaupara sem skoppaði milli skaflanna á stuttbuxum. Eitthvað hefur sá verið annarshugar er hann spennti á sig hlaupaskæði og annan búnað eða þá að hann hefur ekki gáð vel til veðurs. Margur hefði sagt að í dag væri ekki veður hinna stuttu buxna. Annars er veðurfar hér með undarlegra móti svo ekki sé meira sagt. Mild veður með afbrigðum, svo milt að aldraðir bændur sveitarinnar hafa slegið sig áhyggjuhrukkum og muldra um jarðarhlýnun. Menn muna hér fyrri vetur hvar hlöður og önnur híbýli dýra og manna voru grafin í snjá svo mánuðum skipti.
Að loknum göngutúr var keypt kaffi á nálægu kaffihúsi og síðan lagst upp í sófa til að hlusta á áramótaræður fyrirmenna. Fyrst var hlustað á forsætisráðherra og komst hann nokkuð vel frá sínu og á Steinunni Eddu mátti skiljast að hún væri sátt við ræðuna hans. Sennilega af því að ræðan var stutt því varla hefur hún skilið mikið - sem er sosum í lagi því allar þessar ræður eru keimlíkar. Næst var hlustað á hinn milda Bessastaðaleiðtoga sem sannfærði okkur að Ísland væri The Beacon of Light í heimi sem versnandi færi. Eitthvað undi Steinunn Edda sér illa undir lestrinum, orgaði nokkuð og skyrpti snuðinu. Leysti svo hressilega vind og skilji það hver á sinn máta. Við létum biskupsræðuna því eiga sig að sinni.
Jæja, nóg með fyrstu bloggfærslu lífsins. Reyni eitthvað að eiga við þetta á næstunni eins og við verður komið en ofar á listanum verða þó að vera bleyjuskiptingar og akademískur frami sem enn er í smíðum. Horfir nú til betri tíðar enda er mun næstu þremur mánuðum varið í rannsóknarstörf og hver veit nema að tími muni finnast til bréfaskrifta.
Gleðilegt ár annars - og bestu kveðjur úr háborg mannlegra meina og lækninga við þeim.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.