2.1.2007 | 06:30
Síðkomnir áramótaþankar úr miðvestrinu
Það er undarlegur andskoti að miðvestursameríkanar geta ekki haldið almennilega uppá áramót. Kannski er þetta einungis merki um ástandið í þessum svefnbæ hérna sem þó geymir nær 100 þús. hræður. Hvernig má það vera að hægt sé að fara úr einu ári yfir í annað í svona stórum bæ án þess að nokkur taki eftir því? Tryllumst vér Íslendingar um hver áramót eða er hegðunin innan normalmarka? Eru Ameríkanar kannski enn að jafna sig á ofáti vikunnar og ófærir um að fagna nýju ári? Hverjir eru meira normal í fagnaðaráramótalátunum - við eða þeir?
Rann mér til heilsubótar á Gamlársdag (ófögur sjón það segja menn íþróttamannslega smíðaðir og innréttaðir). Rann um nágrennið og skyggndist um. Leitaði að brennu vitandi að enga slíka væri að finna. Ekki einusinni hægt að raka saman laufum haustsins og bera eld að. Allt blautt og rakt og venjulegt. Ansans ári grátt og venjulegt. Rétt sem regnblautt þriðjudagskveld í mars. Hvergi að heyra skoteldahvelli. Pizzasendlar þutu hjá, menn snæddu borgara á McDonalds og restaurantar flestir opnir. Enginn prúðbúinn og ekki áramótalegt um að litast og ég sór þess eið að eyða ekki fleiri áramótum hér.
Komst reyndar að því að maður getur keypt rauðbeður og rauðkál í Ameríku. Svona ansans ári fínar. Þá þarf bara að kjósa nýjan forseta og flytja inn skyr og þá fer að verða búandi hérna. Ljósið í myrkrinu er að loksins er kominn heimilismaður (kona) með kosningarétt - dóttir fæddist okkur hjónum um daginn og er hún amerískur ríkisborgari. Með kosningarétt og allt. Nú er bara að byrja að sýna henni myndir af núverand forseta því ung þurfa börnin að læra um vítin sem varast ber en ég er hræddur um að hún ruglist á forsetanum og apanum í fyrstu bókinni hennar. Það væri ekki gott fyrir apann og gæti síðar litað hugmyndir hennar um apa yfirleitt.
Að keyptu rauðkáli var hlaupið heim (við undarlegar augnotur annarra verslunargesta sem héldu sennilega að ég væri búinn að drekka frá mér bílprófið) og eldaður íslenskur hamborgarhryggur. Það tókst vel þó á húsbóndanum væru þumlar tíu og frekar non-dominant eldamennskugen. Menn segja reyndar að það sé hægt að vekja upp sofandi gen með lyfjum. Ég veit ekki hvort ég leggi í það. Kannski vek ég upp aparófugen forfeðranna í stað eldamennskugensins. Held ég vilji frekar ofsoðnar kartöflur og hlaupkennda sósu en aparófu.
Hvað um það. Skaupið var gott (miðað við skaup síðustu ára) og naut sín vel á tölvuskjánum. Flugeldahvellirnir skiluðu sér síður og kannski maður fái sér betri hátalara fyrir næstu áramót - eða komi heim til lands ísa.
Jæja, dóttirin var ánægð með kveldið og kvartaði ekki undan brennu- eða flugeldaskorti.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.