Kveisa

Nú er ég syfjaður því dóttirin var með magakveisu í nótt. Konan er sennilega ennþá syfjaðri því að hún stóð vaktina þessa nóttina. Þetta er undarlegt fyrirbæri þessi ungbarnakveisa. Enginn virðist vita hvað þetta er og enginn veit hvað er hægt að gera til lækninga. Fræðimenn eru þó sammála um að þetta sé frekar hávaðavandamál en sjúkdómur því alla jafna braggast þessi kveisukríli vel. Þetta var svo sem ekkert sérlega slæmt en olli mér nokkru hugarangri. Lagðist því í smá rannsókn í morgun (eftir tvo vaskafatsstóra bolla af Starbucks) og skemmst er frá því að segja að ég er engu nær um eðli ungbarnakveisu. Fann þó eina grein á PubMed eftir lækni að nafni Garg. Nú þykir ófínt að gera grín að nöfnum fólks en það er vissulega kímið að Dr. Garg skrifi um óhljóð í ungbörnum.

Ekki skortir þó sérfræðingana þarna úti á víðum veraldarvef og allir telja sig hafa lausnina en nær allir eiga þeir það sammerkt að hafa ekkert rannsakað lausnina sína af viti. Stöku fræðimenn ku hafa stúderað þetta af viti nokkru og brúkað til þess þær aðferðir er teljast fínar og móðins í faginu. Ekkert svar er þó að finna - allavega ekki nógu afgerandi til að brúka á stúlkuna.

Konan er annars snjöll. Hún vafði krílið þéttingsfast í teppi og kveikti á hárþurrkunni. Okkur var nefnilega sagt að óspesifískur umhverfishávaði, s.k. hvítur hávaði eða white noise virkaði betur en rammíslensk vögguvísan. Þetta virkaði sannarlega betur en útburðarvælið í mér sem í mínum eyrum hljómaði eins og bíum bíum bamba en skelfdi sennilega afkvæmið. Allavega þagði hún í nokkrar sekúndur og horfði stórum augum á mig, fyrst undrandi en svo get ég svarið að það kom vorkunnarsvipur á hana. Annars veit ég ekkert um white noise nema að það má búa það til með hárþurrku. Reyndi að lesa mér til um fyrirbærið á Wikipediu en skildi ekki baun. Kenni um koffínskorti og syfju því að síðast er ég gáði, þá gat ég skilið svona jargon. Kannski er þetta bara aldurinn.

Vonandi verður næsta nótt betri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Agný

Til hamingju með litlu dótturina. Ég  ákvað að gerast svo frökk að benda þér á meðferðarform sem hefur sýnt og sannað sig að hjálpa í svona tilfellum eins og þú lýsir. En hvað þú /þið nýbakaðir foreldrar gerið með það er annað mál, en ég man svona andvöku nætur en því miður þekkti ég ekki þetta meðferðarform þá.En það er alltaf erfitt þegarþessum litlu krílum líður illa og virðist nokkuð sama hvað maður gerir eða gerir ekki þegar þau eru með magakveisu (colic) En þetta meðferðarform hefur hjálpað mörgum börnum, allavega sakar ekki að skoða.  Þetta meðferðarform kallast á íslensku höfuðbeina og spjaldhryggsmeðferð.Læt hér fylgja nokkrar slóðir Höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð hefur verið beitt með góðum árangri við ungbarnakveisu og eyrnabólgum hjá ungbörnum, http://www.big.is/page8/page8.htmlHvað er höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð?http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=2385Cranio Sacral Therapy for Infants and childrenhttp://www.cstdoula.com/carolgray/Craniosacral%20Therapy%20for%20Infants%20and%20Children.htmlCranioSacral Therapyhttp://www.upledger.com/therapies/cst.htmÞessi síða er með nöfnum meðferðaraðila og hvar þá er að finna í henni Ameríku.http://www.milneinstitute.com/practitionerENG.htmKveðja Agný.

Agný, 2.1.2007 kl. 22:47

2 Smámynd: Þorvarður Ragnar Hálfdanarson

Þakka góðar athugasemdir og krækjur. Þetta virðast svo agnarlítil höfuð- og spjaldhryggsbein að maður myndi varla leggja í neinar manípúleringar. Hver veit nema maður tékki þó á þessu ef andvökunæturnar verða fleiri.

Þorvarður Ragnar Hálfdanarson, 2.1.2007 kl. 23:11

3 Smámynd: Þorvarður Ragnar Hálfdanarson

Blessuð Jóna, bílhljóðin virkuðu vel á guttann minn á sínum tíma en slíkt hefur ekki enn verið brúkað á dömuna. Mér skildist á mæðraverndarhjúkkunni okkar að slík hljóð teldust einnig "white noise" og ég keypti allavega þá skýringuna.

Þorvarður Ragnar Hálfdanarson, 5.1.2007 kl. 05:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband