8.1.2007 | 04:08
Um ótímabæran dauða slædsfilmu
Í dag er ég hryggur því ég syrgi æskufélaga. Þ.e.a.s. Kodachrome 64 slædsfilmuna sem hefur staðið sem klettur við hlið mér um árabil. Það er ekki svo að skilja að hún sé endanlega dauð og horfin sjónum því enn mun hún framleidd. Það er bara frekar erfitt að vera sérvitringsfilma sem enn er framleidd og vita það að enginn hefur áhuga á að framkalla mann nema sérvitringur í Kansas. Reyndar skilst mér að enn sé opið Kodachrome lab í Japan en það er helvíti hart að þurfa að senda filmu einn og hálfan hring um hnöttinn til að fá hana framkallaða. Kodak sjálfur hefur gefið það út að þeir þvoi hendur sínar af ábyrgð til framköllunnar umræddrar eðalfilmu. Mig grunar reyndar að innan skamms muni Kodachrome 64 vera endanlega ýtt til hliðar rétt eins og risaeðlunum hér um árið. Allavega hafa þeir Kodak menn í Rochester, NY gefið hin loðnustu svör er þeir hafa verið spurðir. Eins og einhver sagði, "ætli það verði ekki bara sett inn Kodachrome fúnksjón í næstu útgáfu Photoshop".
A7: Sales of Kodachrome 35mm slide film continue. That being said, Kodak is constantly evaluating its product portfolio -- both digital and traditional -- to ensure that it is consistent with market demands."
Reyndar var framköllunnarstofa í Sviss en skúrkarnir hjá Kodak slógu hana af. Ég las það þó á Wikipedíu (sem alltaf er rétt, ekki satt?) að Evrópusambandið hefði spáð í að hlutast þar til um og koma starfseminni á lappirnar á ný.
"On 25 July 2006 extensive documentation about the impending closure of the Lausanne Kodachrome lab was sent to the European Parliament by the Dutch office of the European Parliament. Although Lausanne lies in Switzerland, not an EU-member state, the lab serves all of Europe and its discontinuation would seriously affect photography in Europe. Two parliamentary committees, one for Culture and Education, the other one for Internal Market and Consumer Protection will study the matter and may come up with solutions, with or without EU-subsidy."
Sennilega þykir ófínt að taka á slæds þessa dagana. Annars neita ég að gefast upp nema í fulla hnefana. Þrjóskast enn við að fá mér stafræna myndavél en hef leyft konunni að fá slíka. Var reyndar með síðustu mönnum til að fá mér farsíma og fartölvu.
Hvað er þetta annars með Kodachrome? Veit það ekki. Er ekki nógu mikill ljósmyndari til að vita það. Ég bara veit að þær þóttu fínar og óprúttinn maður sagði mér að gulir og rauðir litir væru hvergi betri, skærari og fallegri og því gleypti ég við. Hafði með herkjum uppá nokkrum rúllum um daginn er ég fór að skoða Miklagljúfur því fróðir menn höfðu sagt mér að gljúfrið og reyndar allt Arizona væru í Kodachrome litum. Mikið rétt enda tók ég myndir sem óður væri. Nú er bara að senda honum Dwayne í Kansas rúllurnar og sjá hvernig til tókst.
Og nei, ég er ekki á leið að fá mér stafræna myndavél....
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.