5.1.2007 | 06:32
Dolly Parton og bækurnar
Á dauða mínum átti ég von en ekki því að Dolly Parton gæfi dótturinni bækur. Jæja, það er nú ekki eins og hún hafi bankað uppá hér á Fyrsta Stræti og hent inn bókum heldur er hún svona óbeint þess valdandi að bætast mun í bókasafn heimilisins. Fáir vita að Dolly er mikil hugsjónamanneskja er kemur að bóklestri barna og hefur með hjálp Dolly Parton's Imagination Library stuðlað að því að mörg börn hafa eignast barnabækur sem annars hefðu engar slíkar eignast. Fyrir tilstilli Imagination Library og góðgerðarsamtakanna United Way í mínu heimahéraði þá mun dóttirin fá senda eina bók á mánuði til fimm ára aldurs. Nú veit ég ekki hvort aðrar sýslur séu jafn rausnarlegar en nú þegar njóta börn meira en 500 sýslna í meira en 30 ríkjum Bandaríkjanna og Kanada þessa munaðar.
Hverjum hefði dottið þetta í hug? Kudos to Dolly Parton eins og maður myndi segja hér fyrir westan.
Smáfólk | Breytt s.d. kl. 06:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2007 | 23:45
Hóflega drukkið vín og mannsins hjarta...
Hurru læknir! Geturðu skrifað uppá eina flösku af rauðu fyrir mig?
Fer þetta að verða sjálfsögð krafa sjúklinga? Maður spyr sig eftir allt þetta flóð vísindagreina sem renna stoðum undir þá kenningu að hóflega drukkið áfengi gleðji og styrki mannsins hjarta. Eins og fjölmiðlar og aðrir bloggarar hafa bent á þá birtist grein í tímaritinu Annals of Internal Medicine þessa vikuna sem leiddi líkur að því að hófdrykkja karlmanna með of háan blóðþrýsting verndaði þá fyrir hjartaáföllum (bráðakransæðastíflu). Ekki var þó að sjá áhrif á dauðsföll almennt eða dauðsföll af völdum hjartasjúkdóma sem gerir það eilítið erfiðara að ráða í þýðingu þessarar rannsóknar. Í þessari sömu viku birtist svo önnur rannsókn sem komst að svipaðri niðurstöðu en þar kom í ljós að hófdrykkja dró úr hættu á hjartabilun meðal karlmanna (sem reyndar allir voru læknar). Áður hefur birst fjöldi viðlíka rannsókna sem frekar styrkja kenninguna um heilsubætandi áhrif áfengis.
Þessar tvær síðustu rannsóknir virðast vel unnar og vandlega og byggðust á upplýsingum fengnum frá þúsundum karlmanna. Alltaf er þó ákveðin hætta á skekkjum í rannsóknum sem reiða sig á upplýsingar um neysluvenjur fólks en hinn mikli fjöldi þeirra er í rannsókninni voru dregur vonandi úr slíkum skekkjum. Ekki er þó víst hvort færa megi þessar niðurstöður yfir á aðra þjóðfélagshópa (s.s. konur) en vafalítið hljóta menn einnig að vera að rannsaka hvort svo megi gera þó ég viti ekkert um það. Það verður þó að teljast varasamt að mæla með þessu sem heilsuvernd þar eð hætta er á að menn kunni sér ekki hóf og eitt glas verði að tveimur og síðan þremur og síðan verði ákveðið að tæma helv. flöskuna því ekki má vínið fara til spillis. Þá er hætt að heilsuverndin fari fyrir lítið. Annars er Annals með fína samantekt handa leikmönnum sem ekki fást við svona rannsóknir dagsdaglega.
Sem sagt athyglisverðar niðurstöður - en við vitum ekki hvernig berst er að brúka þær og skál fyrir aukinni þekkingu á þessum sviðum...
Heilsufar og mannamein | Breytt 5.1.2007 kl. 05:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2007 | 15:32
Pöddur gegn kveisu...
Er enn að spá í ungbarnakveisu og hnaut um þessa frétt. Hverjum hefði dottið í hug að með því að gefa börnum bakteríusull mætti draga úr kveisu? Þetta þarf svo sem ekki að koma ógurlega á óvart því að lengi hefur verið áhugi á notkun s.k. probiotic baktería til lausnar ýmiskonar iðrameina. Probiotic bakteríur eru nefnilega iðravænar
Nú, ítalskir reyndu að dæla þessu í organdi smábörn. Notuðu til þess bakteríuna Lactobacillus reuteri (ekki er mér kunnugt um skyldleika við Reuters fréttastofuna en ætla má að þeir hafi flutt af þessu fréttir). Börnum var af handahófi (randomized) gefin ýmist bakterían góða eða simethicone sem hefur lengi þótt gagnast þessum kvilla (þó sumar rannsóknir segi það vita gagnslaust). Skemmst er frá því að segja að börnin sem fengu bakteríuna orguðu minna en hin en orguðu nú samt heil ósköp. Mér sýnist að þarna hafi verið vel að verki staðið og viðhöfð vísindaleg vinnubrögð. Nú veit ég ekkert hvort aðrar probiotic bakteríur s.s. þær er finnast í íslenskum mjólkurvörum, gera sama gagn en ekki skyldi átómatískt álíta að sú sé raunin. Hver veit nema maður hafi upp á umræddri bakteríu og helli í dótturina ef hún verður áfram óvær.
4.1.2007 | 03:45
Stuttmynd um morð...
Ég virðist ekki sá eini er fylltist hryllingi yfir aftöku Saddams í blálokin á síðasta ári. Er annars ákaflega mikið andsnúinn dauðarefsingum og hreint enginn aðdáandi Saddams sem var augljóslega var forað hið mesta. Eins og alþjóð er orðið kunnugt, þökk sé farsímum (sem ekki í fyrsta sinni skipa veigamikinn sess í fréttaflutningi af voðaverkum í Írak), þá snerist hin "hlutlausa" aftaka upp í einskonar uppjör stríðandi fylkinga múslima. Eitthvað munu írakskir vera að reyna að afsaka klúðrið en ólíklegt að það takist.
Nú horfi ég sjaldan á sjónvarp en gerði undantekningu þennan örlagaríka dag enda "prime time" hjá mér fyrir vestan. Saddam gekk að gálganum og á meðan biðu blóðþyrstir sjónvarpsáhorfendur fyrir framan skjáinn. Með ákveðnu millibili fann Anderson Cooper sig knúinn til að láta okkur vita að yfir hann rigndi t-póstum þar sem áhorfendur létu í ljós að þá þyrsti í blóð. Í myndir af Saddam. Minna fór fyrir því að við fengjum að vita af innihaldi annarra t-pósta en þeirra er heimtuðu myndir. Mundi þá af hverju ég hef ekki horft mikið á sjónvarp sl. árin. Sagði ekki einhvers staðar að það yrði að færa lýðnum brauð og leika?
Las góða bloggfærslu í dag. Lesturinn minnti mig á fimmtu boðorðastuttmynd Kiezlowskis, stutta mynd um morð. Það er kynngimögnuð mynd um aftöku í boði ríkisins og án trúarbragðaskætings. Hinn ólánssami Jacek drepur leigubílsstjóra á hrottafenginn hátt og geldur fyrir það með lífi sínu. Vart má á milli sjá hvort morðið er óhugnanlegra en það var eitthvað svo ískalt og ópersónulegt við aftökuna sem sendi hroll niður bakið. Ómissandi mynd hverjum þeim er unnir kvikmyndum og hefur áhuga á dauðarefsingum. Annars sagði mér vinur minn pólskur að á námsárum hans í Varsjá voru stuttmyndir Kieslowskis notaðar sem hvati í margvíslegum umræðum um siðfræði. Fyrst var glápt á mynd (og væntanlega drukkið Zubrówka til að liðka málbeinin) og svo upphófust umræður. Það var ekki svona skemmtilegt í mínu háskólanámi - enda kannski ekki við því að búast í minni deild.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2007 | 19:54
Kveisa
Nú er ég syfjaður því dóttirin var með magakveisu í nótt. Konan er sennilega ennþá syfjaðri því að hún stóð vaktina þessa nóttina. Þetta er undarlegt fyrirbæri þessi ungbarnakveisa. Enginn virðist vita hvað þetta er og enginn veit hvað er hægt að gera til lækninga. Fræðimenn eru þó sammála um að þetta sé frekar hávaðavandamál en sjúkdómur því alla jafna braggast þessi kveisukríli vel. Þetta var svo sem ekkert sérlega slæmt en olli mér nokkru hugarangri. Lagðist því í smá rannsókn í morgun (eftir tvo vaskafatsstóra bolla af Starbucks) og skemmst er frá því að segja að ég er engu nær um eðli ungbarnakveisu. Fann þó eina grein á PubMed eftir lækni að nafni Garg. Nú þykir ófínt að gera grín að nöfnum fólks en það er vissulega kímið að Dr. Garg skrifi um óhljóð í ungbörnum.
Ekki skortir þó sérfræðingana þarna úti á víðum veraldarvef og allir telja sig hafa lausnina en nær allir eiga þeir það sammerkt að hafa ekkert rannsakað lausnina sína af viti. Stöku fræðimenn ku hafa stúderað þetta af viti nokkru og brúkað til þess þær aðferðir er teljast fínar og móðins í faginu. Ekkert svar er þó að finna - allavega ekki nógu afgerandi til að brúka á stúlkuna.
Konan er annars snjöll. Hún vafði krílið þéttingsfast í teppi og kveikti á hárþurrkunni. Okkur var nefnilega sagt að óspesifískur umhverfishávaði, s.k. hvítur hávaði eða white noise virkaði betur en rammíslensk vögguvísan. Þetta virkaði sannarlega betur en útburðarvælið í mér sem í mínum eyrum hljómaði eins og bíum bíum bamba en skelfdi sennilega afkvæmið. Allavega þagði hún í nokkrar sekúndur og horfði stórum augum á mig, fyrst undrandi en svo get ég svarið að það kom vorkunnarsvipur á hana. Annars veit ég ekkert um white noise nema að það má búa það til með hárþurrku. Reyndi að lesa mér til um fyrirbærið á Wikipediu en skildi ekki baun. Kenni um koffínskorti og syfju því að síðast er ég gáði, þá gat ég skilið svona jargon. Kannski er þetta bara aldurinn.
Vonandi verður næsta nótt betri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.1.2007 | 06:30
Síðkomnir áramótaþankar úr miðvestrinu
Það er undarlegur andskoti að miðvestursameríkanar geta ekki haldið almennilega uppá áramót. Kannski er þetta einungis merki um ástandið í þessum svefnbæ hérna sem þó geymir nær 100 þús. hræður. Hvernig má það vera að hægt sé að fara úr einu ári yfir í annað í svona stórum bæ án þess að nokkur taki eftir því? Tryllumst vér Íslendingar um hver áramót eða er hegðunin innan normalmarka? Eru Ameríkanar kannski enn að jafna sig á ofáti vikunnar og ófærir um að fagna nýju ári? Hverjir eru meira normal í fagnaðaráramótalátunum - við eða þeir?
Rann mér til heilsubótar á Gamlársdag (ófögur sjón það segja menn íþróttamannslega smíðaðir og innréttaðir). Rann um nágrennið og skyggndist um. Leitaði að brennu vitandi að enga slíka væri að finna. Ekki einusinni hægt að raka saman laufum haustsins og bera eld að. Allt blautt og rakt og venjulegt. Ansans ári grátt og venjulegt. Rétt sem regnblautt þriðjudagskveld í mars. Hvergi að heyra skoteldahvelli. Pizzasendlar þutu hjá, menn snæddu borgara á McDonalds og restaurantar flestir opnir. Enginn prúðbúinn og ekki áramótalegt um að litast og ég sór þess eið að eyða ekki fleiri áramótum hér.
Komst reyndar að því að maður getur keypt rauðbeður og rauðkál í Ameríku. Svona ansans ári fínar. Þá þarf bara að kjósa nýjan forseta og flytja inn skyr og þá fer að verða búandi hérna. Ljósið í myrkrinu er að loksins er kominn heimilismaður (kona) með kosningarétt - dóttir fæddist okkur hjónum um daginn og er hún amerískur ríkisborgari. Með kosningarétt og allt. Nú er bara að byrja að sýna henni myndir af núverand forseta því ung þurfa börnin að læra um vítin sem varast ber en ég er hræddur um að hún ruglist á forsetanum og apanum í fyrstu bókinni hennar. Það væri ekki gott fyrir apann og gæti síðar litað hugmyndir hennar um apa yfirleitt.
Að keyptu rauðkáli var hlaupið heim (við undarlegar augnotur annarra verslunargesta sem héldu sennilega að ég væri búinn að drekka frá mér bílprófið) og eldaður íslenskur hamborgarhryggur. Það tókst vel þó á húsbóndanum væru þumlar tíu og frekar non-dominant eldamennskugen. Menn segja reyndar að það sé hægt að vekja upp sofandi gen með lyfjum. Ég veit ekki hvort ég leggi í það. Kannski vek ég upp aparófugen forfeðranna í stað eldamennskugensins. Held ég vilji frekar ofsoðnar kartöflur og hlaupkennda sósu en aparófu.
Hvað um það. Skaupið var gott (miðað við skaup síðustu ára) og naut sín vel á tölvuskjánum. Flugeldahvellirnir skiluðu sér síður og kannski maður fái sér betri hátalara fyrir næstu áramót - eða komi heim til lands ísa.
Jæja, dóttirin var ánægð með kveldið og kvartaði ekki undan brennu- eða flugeldaskorti.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2007 | 02:31
Upphafsblogg
Jamm og já, á þá að fara að blogga. Maður er nú sosum búinn að velta þessu fyrir sér um skeið og nú skal látið reyna á það. Sennilega er þetta tímaeyðsla hin versta. Ætli megi þó ekki líta á þetta sem þjónustu við ættingja uppá klakanum, svona leið til að miðla upplýsingum um familíuna hér vestra og spara símagjöld. Kannski getur maður og póstað myndum af henni Steinunni Eddu, nýjasta fjöskyldumeðlimnum. Steinunn Edda er skýr og skemmtileg stúlka, enda lík móður sinni. Frá föður sínum hefur hún fengið smávægilegar fæðingargjafir s.s. flatan fót og stutta putta. Misjafnlega deilist nú erfðaefnið. Mér segja fróðir menn að mæður eigi erfðafræðilega eilítið meira í börnunum vegna erfðaefnis hvatbera sem einungis kemur frá móður. Enn lét maður í minni pokann og er sá pokinn nú farinn að verða ansi stór.
Í dag var farið í nýárslabbitúr og labbað með lækjarsprænu hverfisins. Ekki er hægt að segja að hverfisbúar hafi tekið upp þann rammíslenska sið að ganga sér til hressingar og heilsubótar á Jóla- og Nýársdegi. Þar var fátt um mannin utan einmana hlaupara sem skoppaði milli skaflanna á stuttbuxum. Eitthvað hefur sá verið annarshugar er hann spennti á sig hlaupaskæði og annan búnað eða þá að hann hefur ekki gáð vel til veðurs. Margur hefði sagt að í dag væri ekki veður hinna stuttu buxna. Annars er veðurfar hér með undarlegra móti svo ekki sé meira sagt. Mild veður með afbrigðum, svo milt að aldraðir bændur sveitarinnar hafa slegið sig áhyggjuhrukkum og muldra um jarðarhlýnun. Menn muna hér fyrri vetur hvar hlöður og önnur híbýli dýra og manna voru grafin í snjá svo mánuðum skipti.
Að loknum göngutúr var keypt kaffi á nálægu kaffihúsi og síðan lagst upp í sófa til að hlusta á áramótaræður fyrirmenna. Fyrst var hlustað á forsætisráðherra og komst hann nokkuð vel frá sínu og á Steinunni Eddu mátti skiljast að hún væri sátt við ræðuna hans. Sennilega af því að ræðan var stutt því varla hefur hún skilið mikið - sem er sosum í lagi því allar þessar ræður eru keimlíkar. Næst var hlustað á hinn milda Bessastaðaleiðtoga sem sannfærði okkur að Ísland væri The Beacon of Light í heimi sem versnandi færi. Eitthvað undi Steinunn Edda sér illa undir lestrinum, orgaði nokkuð og skyrpti snuðinu. Leysti svo hressilega vind og skilji það hver á sinn máta. Við létum biskupsræðuna því eiga sig að sinni.
Jæja, nóg með fyrstu bloggfærslu lífsins. Reyni eitthvað að eiga við þetta á næstunni eins og við verður komið en ofar á listanum verða þó að vera bleyjuskiptingar og akademískur frami sem enn er í smíðum. Horfir nú til betri tíðar enda er mun næstu þremur mánuðum varið í rannsóknarstörf og hver veit nema að tími muni finnast til bréfaskrifta.
Gleðilegt ár annars - og bestu kveðjur úr háborg mannlegra meina og lækninga við þeim.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.12.2006 | 00:48
Fyrsta bloggfærsla
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)