Færsluflokkur: Tónlist
8.4.2007 | 04:05
Ich ruf zu dir, Herr Jesu Christ...
Þá er maður búinn að læra á tónlistarspilarann. Erfið fæðing og undarlegt nokk þá neitaði moggablogg að upphlaða kantötu 82 (Ich habe genug) eftir Jóhannes S. Bach og kannski hefur bloggið bara fengið genug...
Setti þó inn eitthvað af góðu efni eftir hann Bach blessaðan. Allt ákaflega páskalegt ekki satt þó kantata 91 sé reyndar jólakantata ef mig brestur ekki minni.
Annars langar mig að benda á aldraða upptöku Edwin Fischer af Busoni útgáfu Bach kantötubrotsins Ich ruf zu dir, Herr Jesu Christ... Þessi upptaka er frá 1933 og hefur sjarmerandi suð. Umfram allt er hún þó geysilega falleg.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.4.2007 | 19:10
Mattheusarpassían er plata vikunnar...
Plata vikunnar eða allavega helgarinnar er Mattheusarpassía Jóhannesar S. Bach í flutningi Concentus Musicus Wien undir stjórn Nikolaus Harnoncourt. Alveg sérlega vel heppnaður flutningur og mikið lagt í umbúðir og meðfylgjandi lesefni. Svo ku vera ítarefni í tölvutæku formi á diskunum og hver veit nema ég verði einn daginn svo snjall að geta nýtt mér það.
Aðrar góðar útgáfur á umræddri passíu eru m.a. hin gamla og seigfljótandi upptaka Otto Klemperer og Philharmonia Orchestra og hin all nokkuð frísklegri upptaka Gardiners & Co. og kattagarnahljómsveitar hans.
Allar þrjár eru hverrar krónu virði...
Tónlist | Breytt s.d. kl. 19:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)