23.1.2008 | 06:11
Minningargrein um plastpoka...
Plastpokar eru óþverri. Allavega þessir næfurþunnu sem maður fær hér vestra. Þeir brotna illa niður í náttúrunni og í stað þess að brotna niður (og eyðast) þá molna þeir í æ minni agnir sem berast til sjávar og þaðan yfir í lífríkið. Mér er sagt að stór og reyndar stækkandi flekkur í Kyrrahafinu sé í raun súpa plastpokaagna sem sé á góðri leið með að gera út um lífríkið. Nú veit ég ekki hvort seigir íslenskir bónuspokar hagi sér eins í náttúrunni en vel má vera að svo sé. Í öllu falli eru þeir mengun. Sumir hafa áætlað að nú þegar hafi Bandaríkjamenn einir brúkað yfir 30 milljarða af plastpokum þetta árið, og enn er bara janúar...
Nú hafa vissar gæðabúðir í mínu fyrrum nágrannahéraði sagt plastpokum stríð á hendur. Um er að ræða nokkrar búðir innan Minneapolis-St. Paul svæðisins þ.m.t. gourmetbúðina Whole Foods og Lunds og Byerlys hyggjast feta í fótspor þeirra. En á ég þó eftir að sjá risa sem Walmart, HyVee og Cub Foods gera slíkt hið sama. Sumar borgir, þ.m.t. San Francisco munu hafa gert slíka poka útlæga og er það vel. Það er hverjum þeim er dvalið hefur í BNA ljóst að það þarf meiriháttar hugarfarsbreytingu til að takist að losa sig við plastpokana. Einhvers staðar verður þó að byrja og nú má sjá mig og mína skjótast búð úr búð með margnota taupoka á öxlinni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.