29.1.2007 | 05:42
Elgshöfuð kemur nemanda í koll...
Nemandi nokkur við Penn State University hefur stefnt sinni menntastofnun fyrir vanrækslu við gæslu og veggfestingu elgshöfuðs sem féll af vegg skólastofu og í höfuð stúdínunni þá hún rýndi í míkróskóp. Hlaut hún af þessu nokkrar höfuðkvalir sem og und nokkra á sjálfsvirðingu. Minnti um margt á Óskar Björnsson, mag. scient., þann er varð fyrir því óláni að fá L-ið úr "EFLA" úr setningunni "vísindin efla alla dáð" í höfuðið þá hann gekk inn í hátíðarsal Háskóla Íslands til að verja doktorsritgerð sína. Ærðist Óskar eftir atvikið og lagði eftir það stund á rannsóknir á borðtuskulykt.
Við skulum vona að ekki fari jafn illa fyrir stúdínunni frá Pennsylvaníu.
Bloggar | Breytt 3.2.2007 kl. 04:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.1.2007 | 00:05
Um útlit þeirra er nú til dags spila sígilda tónlist...
Það hefur ekki farið fram hjá aðdáendum sígildrar tónlistar að hin seinni ár virðist sem fallegra fólk hafi hneigst til flutnings slíkrar tónlistar eða það sem ólíklegra er, að útgáfufyrirtæki hampi hinum fallegu frekar...
Þetta virðist mér hafa verið meira áberandi á fjölunum og sem dæmi hefi ég á síðari árum séð föngulega listamenn á sviðinu s.s. Leilu Josefovicz, Leif Ove Andsnes, Hilary Hahn og Joshua Bell. Eru svo ótaldir aðrir sem ekki hafa drepið niður fæti í nánd við mig s.s. Hélène Grimaud, Roberto Alagna (og spúsa hans, Angela Gheorghiu) og Alison Balsom. Tímaritið Gramophone keppir nú að því er virðist við Cosmopolitan, Elle og Sports Illustrated í birtingu eggjandi mynda af föngulegum fljóðum og glæsisveinum. Þetta var öðruvísi er hún amma mín var að kynna mig fyrir klassískri tónlist gegnum gufuna og gamla grammófóninn en þá hlustuðum við á David Oistrakh, Wanda Landowska og Otto Klemperer. Ég er ekki viss um að nokkuð þeirra hefði verið í essinu sínu á sundbol eða grunnum buxum (nema kannski Klemperer í einni af maníunum sínum), enda birtust öngvar slíkar myndir af þeim í gljáblaðatímaritum.
Nú má svo sem segja að fegurð sé afstæð (sem hún auðvitað er) og það að ekki ætti að láta útlit listamanna skipta máli. Menn (og konur) mér greindari og fróðari gætu sennilega látið móðan mása um kosti og galla þeirrar stefnu að sækjast eftir fallegum listamönnum en ég læt mér nægja að hlusta á músíkina og ef um er að ræða afburða listafólk, þá er hraustlegt og gott útlit ekkert nema bónus sem ber að gleðjast yfir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2007 | 04:28
Þá er komin lækningin við reykingafíkninni - bara að fá heilablóðfall...
Heilinn er margslunginn og starfsemi hans verður sennilega seint skilin til fulls. Nú hafa vísindamenn frá Kaliforníu og mínu gamla alma mater, University of Iowa, fundið það út að heilablóðfall sem orsakar drep á völdum stað í heilanum, getur drepið löngun manna í sígarettur. Þessu er sagt frá í Science sem og í NY Times.
Scientists studying stroke patients are reporting today that an injury to a specific part of the brain, near the ear, can instantly and permanently break a smoking habit. People with the injury who stopped smoking found that their bodies, as one man put it, forgot the urge to smoke.
Theres a whole neural circuit critical to maintaining addiction, but if you knock out this one area, it appears to wipe out the behavior, said Dr. Antoine Bechara, a senior author of the new paper, who is a neuroscientist at the Brain and Creativity Institute at U.S.C. His co-authors were Dr. Hanna Damasio, also of U.S.C., and Nasir Naqvi and David Rudrauf of the University of Iowa.
Tekið er fram að rannsóknin sé lítil og ekki hægt að alhæfa út frá þetta fáum sjúklingum og vonandi verður hægt að brúka þessa þekkingu mönnunum til góðs einhvern daginn. Manni finnst það svona fulldrastískt að þurfa að fá heilablóðfall til að geta hætt að reykja.
Annars gerðu Rússar (og reyndar Bandaríkjamenn einnig) talsvert af því að skemma heilastöðvar í "lækningalegum" tilgangi hér áður fyrr. T.d. var reynt að afglæpa glæpamenn með að hræra í framheilanum með e.k. eggjaþeytara sem stungið var upp í nefið og uppí heila (svo nokkuð sé nú ýkt í frásögnum...). António Egas Moniz hinn portúgalski var faðir þeirra aðgerða og það er interressant að einn af höfundum greinarinnar, hún Hanna Damasio, sem áður var ásamt bónda sínum Antonio, prófessor við U of Iowa, er einnig frá Portúgal. Meira um þessa skelfilegu heilaaðgerðir síðar...
Þeim sem vilja fræðast frekar um þessháttar innankúpu- og heilakrukk er samt bent á hina frábæru bók Jack El-Hai, The Lobotomist: A Maverick Medical Genius and His Tragic Quest to Rid the World of Mental Illness.
Heilsufar og mannamein | Breytt 24.2.2007 kl. 19:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.1.2007 | 19:10
Sinfóníur Prókófíevs og löngunin til að skalla einhvern...
Það er hægt að fá overdose af Prókófíev. Ég segi það satt. Búinn að eyða síðustu dögum í að slá skraufþurrar upplýsingar í gagnabanka sem ég er að útbúa, akademískum framgangi mínum til framdráttar (vonandi...). Varð ergilegri og ergilegri þrátt fyrir gnótt kaffis. Skildi lítt hvað olli. Var reyndar búinn að þræla mér tvisvar í gegnum allar sinfóníur Prókófíevs í flutningi Royal Scottish National Orchestra undir stjórn Eistans (er það rétt að segja Eistar?) Neeme Järvi. Góðir diskar en nokkuð þungir og tormeltir en þegar þeim var skipt út fyrir Remain in Light með Talking Heads þá lagaðist allt. Það er því hægt að óverdósa á Prókófíev og slíkur óverdós veldur ergelsi - ekki ólíku því sem biðröð á Starbucks veldur.
Sagði ekki Woody Allen að hvert sinn er hann hlustaði á tónlist Richards Wagner, þá langaði hann að ráðast inn í Pólland?
Kannski að við fáum Landsliðið í boltakasti til að hlusta á Niflungahringinn í kveld - áður en leikur hefst.
Lokaniðurstaða: Prókófíev núll, David Byrne eitt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.1.2007 | 02:35
Af gruggugum fótaböðum og óhreinum innyflum
Allt er nú til. Sá í fréttunum að nú telja einhverjir sig getað losað eiturefni út um fótaskinn, svo fremi maður láti af hendi rakna nokkurt fé til kaupa þá þartilgerðu fótabaðstæki (sem merkilega mikið líkist hinum sívinsælu fótanuddtækjum sem finna mátti á hverju íslensku heimili) og einhvers konar efnasulli til að setja í baðið. Vafalítið hafa farið fram á þessu góðar og vandaðar rannsóknir þó fréttamönnum hafi láðst að geta þess í fréttatíma. Ég bíð spenntur eftir að fylgjendur þessarar orma- og eiturefnahreinsunar leiðrétti þetta og pósti lista sem tíundar þær rannsóknir sem hafa farið fram á þessu svo vér vantrúaðir getum sannfærst...
Og svo eru það ristilskolanirnar. Allra meina bót er mér sagt. Sennilega er einnig um að ræða gnótt vísindalegra rannsókna sem liggja að baki þeim. Eða kannski einhverjar duldar langanir úr smiðju Freuds. Langanir sem útgefandi hans treysti sér ekki til að setja á prent. Annars var svona garnaskolunaræði meðal þotuliðsins, þ.e. leikara og þessháttar hér um árið. Enda er það allt sérlega fallegt og vel hreinsað fólk nú orðið. Geymir sennilega ekki sama garnagroms og við hin. "Hátt enni, beint nef. Heilar tennur, fæ aldrei kvef" eins og skáldið kvað. Heilsan kemur sennilega ekki frá góðu mataræði, reglulegri hreyfingu og góðum genum, heldur frá hreinum ristli. Heilbrigð sál í hreinum ristli, ekki satt?
Annars hitti ég svona garnaskolunarkall um árið. Hann fékk samt krabba. Fúlt, maður. Sennilega hafa vinnufélagarnir ekki hreinsað sig sem skyldi og hleypt út daunillum eiturgufum í viðurvist hans. Hann axlaði svo byrðar náungans. Góðmenni með hreinan ristil - en óheppinn.
Og það var nú allt sem ég vildi segja...
Hreint epli - hreinn ristill...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.1.2007 | 17:27
Af hverju getur fólk ekki bara drukkið venjulegt kaffi?
Alltaf sama ergelsið á Starbucks. Maður er í tímaþröng, vansvefta, of seinn á fund og vantar bara einn andsk. f*#%%ng kaffibolla og þá eru alltaf fimmtán manns á undan manni sem vilja Frappucino Skim Latte en samt með half-soy og bara einum fjórða af gervirjóma og dash af sýrópi af torkennilegri bragðtegund. Svo er borgað með korti og biðin lengist og maður engist - um af ergelsi.
Ég fer hér með fram á speed-line á Starbucks fyrir nútímamann í tímaþröng. Nútímamann sem ekki hefur tíma eða geð til að bíða eftir að 15 aðrir láti baristann malla oní sig 1500 kaloríu sykursýurópskaffileðju. Nútímamann sem drekkur svart kaffi án sýróps og rjóma og súkkulaðispóna - og borgar með cash...
Er það til of mikils ætlast...?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.1.2007 | 05:02
Hin hvíta borg og upphaf amerískra fjöldamorðingja
Það hefur ekki gerst oft á síðustu árum að ég hef orðið gagntekinn af bók. Einhverra hluta vegna er eins og oflestur þurra fræðibóka hafi minnkað lyst mína á góðum bókum og orðið þess valdandi að maður halli sér frekar að fánýtu vefráfi. Síðustu árin hafa verið rýr er kemur að bókum og nokkrir dæmigerðir titlar á þessu heimili verið Intuitive Biostatistics, Monitoring the Health of Populations og Epidemiology - Beyond the Basics. Sem sagt enginn skemmtilestur hér á bæ. Ég held svei mér þá að ég hafi ekki hrifist af lestri síðan ég spændi af ofsa gegnum bækur Mark Kurlansky, Salt: A World History, Cod, og The Basque History of the World: The Story of a Nation.
Fór á ráðstefnu í Flórída um helgina og er ég hljóp um flugvöllinn í Minneapolis ásamt samstarfsmanni mínum, þá stoppaði sá skyndilega og sagði: "Maður fer aldrei á fagidjótaráðstefnu nema að fyrst kaupi maður sér góða bók til geðheilsuverndar". Eftir að hafa lítið séð nema fagbækur s.l. árið þá þraut mig vitrænt örendi og enga fann ég bókina. Stundi mæðulega og leit á ferðafélagann og sagðist sennilega neyðast til að lesa tímamótagrein Sackett um Bias in Analytic Research frá 1977 í flugvélinni því enga fyndi ég bókina. Hann hugsaði djúpt, klóraði sér og sagði: "Bíddu andartak!" Dró mig inn í bókabúð, rauk beint í hillu, reif út bók og henti í mig og sagði: "Lestu þessa!".
Bókin var The Devil in the White City: Murder, Magic, and Madness at the Fair that Changed America eftir Erik Larson. Þetta er kynngimögnuð lesning og ekki reyndist mér unnt að leggja hana frá mér fyrr en allar ríflega 400 blaðsíðurnar voru að baki og hlaut bókin mun meiri athygli en ráðstefnan sjálf. Umhverfið er Chicago í lok 19. aldarinnar og segja má að bókin snúist um tvo merkismenn. Annar var framsýnn og djarfur arkítekt, Daniel Hudson Burnham, driffjöður og einskonar framkvæmdarstjóri Heimssýningarinnar í Chicago árið 1893. Burnham þessi er m.a. þekktur fyrir hönnun Flatiron byggingarinnar í New York sem margir þekkja. Heimssýningin og undirbúningurinn að baki henni er í raun leiksvið bókarinnar og er með ólíkindum að þess tíma mönnum með þess tíma tækni hafi tekist að leysa þetta gríðarlega verkefni eins vel og raun bar vitni þó ófáir vesalingarnir hafi látist við framkvæmdina. Hinn skuggalegri og dekkri helmingur bókarinnar er hinn skelfilegi morðingi og bona fide psýkópati, H.H. Holmes eða öðru nafni Herman Webster Mudgett sem að mati sumra er hinn fyrsti raðmorðingi í sögu Bandaríkjanna. Ekki er vitað til þess að Burnham og Holmes hafi nokkurn tíman hist þó að Heimssýningin hafi spilað stóra rullu í lífi beggja þessara manna. Annars eru reyndar kynntir til sögunnar fleiri athyglisverðir karakterar, s.s. hinn heilsuveili en augljóslega hæfileikaríki hugsjónamaður og landslagsarkitekt Frederick Law Olmsted og verkfræðingurinn George Washington Gale Ferris Jr., sá hinn sami og hannaði parísarhjólið til þess að slá út Eiffel turninn sem var djásnið í kórónu Parísarsýningarinnar 1898 en mottóið var "to out-Eiffel Eiffel himself".
Frábær bók í alla staði og þess virði að eiga.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.1.2007 | 05:47
Góð blöð og Sámur frændi mundar felgulykilinn...
Var að glugga í Utne Reader á vefnum enda um mína sveitunga að ræða. Ágætt blað og þeir voru svo vænir að gefa öðrum tímaritum viðurkenningu fyrir góða frammistöðu á nýliðnu ári. Þar fékk m.a. tímaritið BIDOUN viðurkenningu sem besta tímaritið í flokknum "Social/Cultural Coverage & Design". Ekki þekki ég mikið til umrædds tímarits en þeir mega eiga það að á heimasíðunni var þessi stórgóða mynd af Sámi frænda í árásarhug þar sem hann mundar voldugan lykil og gerir sig líklegan til að berja á Írönum...
Skopmynd en með nokkuð alvarlegan undirtón, ekki satt?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.1.2007 | 04:27
Hvernig hengja á mann svo hausinn haldist á
Ekki datt manni í hug að Írakar gætu klúðrað aftökum ráðamanna enn frekar. Ekki byrjaði það vel með aftöku Saddams og versnaði heldur er hausinn fauk af hálfbróður Saddams hér um daginn eftir að menn höfðu misreiknað eitthvað lengdina á reipinu, fallþunga hálfbróðurins og kannski eitthvað fleira. Um þetta ræðir NYT nokkuð ítarlega og vitnar þar í leiðbeiningar ameríska hersins, "Procedure for Military Executions" frá 1947. Á síðu 14 er að finna töflu um hæfilega lengd reipis miðað við þyngd þess er hengja á.
...Determine the proper amount of drop of the prisoner through the trap door. A standard drop chart for normal men of given weights is given below. Variation of the drop because of physical condition may be necessary. A medical officer should be consulted to determine whether any factors, such as age, health, or muscular condition will affect the amount of drop necessary for a proper
execution....
Fyrir aftöku er mælt með að spilaður sé Dauðamars en að lokinni aftöku er síðan mælt með að viðstödd hljómsveit leiki gleðilag.
The escort will then proceed toward the scene of the execution, the band playing the "Dead March."
Upon the pronouncement of the death of the prisoner, the escort, with the band playing a lively air, will return to the parade ground and be dismissed.
Svona segir herinn til um framkvæmt henginga. Það er annars merkilegt hvað stjórnvöld eru reiðubúin til að setja af gömlum skjölum og "manúölum" hersins á vefinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.1.2007 | 03:58
Um manngæsku Gamla Nóa...
Var að syngja fyrir dótturina í kveld. Söng Gamla Nóa og sú stutta lét útburðarvæl föður síns lítið á sig fá en vonaði sennilega að móðir hennar ætti næsta leik.
Var að spá í karaktereinkennum Gamla Nóa og hverjum hann hafi ekki verið velviljaður.
Gamli Nói, gamli Nói
Guðhræddur og vís
mikils háttar maður
mörgum velviljaður
Spurningin er því: Hverjir voru ekki í náðinni hjá Nóa?
Þar eð dóttirin er einungis fimm vikna slapp ég fyrir horn og þurfti ekki að útskýra þessa setningu...
Sennilega krefst hún svara einn dagin...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)