The Northwest Passage...

The Northwest Passage er sjóleiðin norður fyrir Kanada og hefur leiðin sú verið illfær vegna hafíss. Það kann þó að vera að breytast þar sem jarðarhlýnun bræðir ísinn og opnar áður lokaðar sjóleiðir. Þetta hljómar kannski ekki svo spennandi en það er þó margt sem hangir á spýtunni. Sæfarar fyrri alda reyndu lengi að komast norður fyrir Kanada og hugsuðu sér gott til glóðarinnar ef tækist að opna nýja verslunarleið til Asíu. Þetta var Bretum sérstaklega hugleikið og gerðu þeir út af örkinni nokkra hugaða sæfara en allt kom fyrir ekki. Það var ekki fyrr en Roald Amundsen smaug þarna í gegn á gömlu síldarskútunni Gjøa árið 1906. Síðar reyndu menn að lauma þarna í gegn ýmsum fleyjum með misjöfnum árangri en ekki virtist leiðin ætla að verða fýsileg til flutninga svona almennt. Reyndar fór þarna um barkur einn mikill árið 1969 en það var hvorki meira né mina en SS Manhattan sem var eitt stærsta skip sem nokkru sinni hefur siglt undir Bandarískum fána. Þrátt fyrir að skipið væri stórt og knúið 43.000 hestafla vél þá þurfti það hjálp kanadískra ísbrjóta til að komast leiðar sinnar. Þetta þótti ekki hagkvæm eða áreiðanleg leið til að flytja olíu frá Alaska og leiddi m.a. til þess að Alaska pípulögnin var byggð.

Nú er Northwest Passage aftur komin í fréttirnar og er það vegna bráðnunar íssins og þeirrar staðreyndar að Kanadamenn gera tilkall til svæðisins en Bandaríkjamenn eru því ekki allsendis sammála og reyndar er svo farið um fleiri þjóðir sem segja að um sé að ræða s.k. "international strait" sem að Kanadamönnum sé ekki heimilt að stjórna nema að takmörkuðu leyti. Kanadamenn vilja ekki gefa neitt eftir og haft var eftir Stephen Harper forsætisráðherra að:

"Canada has a choice when it comes to defending our sovereignty over the Arctic. We either use it or lose it. And make no mistake, this Government intends to use it. Because Canada’s Arctic is central to our national identity as a northern nation. It is part of our history. And it represents the tremendous potential of our future."

Ekki er víst að Bandaríkjamenn vilji una þessum málalokum og það skyldi þó ekki vera að þeir snúi sér að Kanada þegar þeir eru búnir að gefast upp í Írak...

Frægðarför SS Manhattan


Hjólreiðar eru ekki samgöngumáti og fjárveitingar til þeirra geta jafnvel valdið því að brýr hrynji...

Það er ekki einleikið hvað G.W. Bush hefur tekist að ráða marga amlóða og kjána í áhrifastöður. Kjáni sumarsins (og er samkeppnin hörð) er hugsanlega samgönguráðherra stjórnarinnar, Mary Peters sem lét þau orð falla í sjónvarpsþætti nýlega að jafnvel mætti rekja hrun brúarinnar í Minneapolis í síðasta mánuði til þeirrar staðreyndar að of miklu fé væri varið í göngu- og hjólreiðastíga. Þess utan telur hún allar þær brautir sem ekki eru beinlínis gerðar fyrir reykspúandi bensínháka ekki teljast til umferðaræða. Þetta finnst mér hið athyglisverðasta mál en ég fer einmitt til og frá vinnu á reiðhjóli og gæti vel hugsað mér fleiri  hjólreiðastíga.

The Minneapolis bridge collapse on Aug. 1 led Secretary of Transportation Mary Peters to publicly reflect on federal transportation spending priorities and conclude that those greedy bicyclists and pedestrians, not to mention museumgoers and historic preservationists, hog too much of the billions of federal dollars raised by the gas tax,transportation money that should go to pave highways and bridges. Better still, Peters, a 2006 Bush appointee, apparently doesn't see biking and walking paths as part of infrastructure at all.

Augjóslega vakti þetta mikla reiði meðal hinna fjölmörgu reiðhjólandi Bandaríkjamanna og varð m.a. til þess að formaður the League of American Bicyclist skrifaði henni frekar beinskeytt bréf sem að sjálfsögðu var einnig gert opinbert og bendir hann þar m.a. á þá staðreynd að einungis einu prósenti fjárframveitinga til samgangna sé varið til gerðar og viðhalds göngu- og hjólreiðastíga þrátt fyrir að um 10% fólks fari ferða sinna annað hvort gangandi eða hjólríðandi (nokkuð hærra hlutfall en mig grunaði). Og ekki bara það, heldur bendir hann einnig á að yfirvöld hafi ósjaldan ekki tekist að eyða þeim upphæðum sem ætlaðar voru til brúarviðhalds og bygginga og þeim fjárhæðum hafi verið skilað aftur til Wahington.

 You did not point out the huge sums of money that states have been allocated for bridge projects over the years but they have failed to spend. Indeed, states have returned to Washington hundreds of millions of “unspent” bridge program dollars as part of recent rescissions ordered by the Congress.

Það var því helvítis hjólreiðapakkinu að kenna að brúarræksnið hrundi...

Helvítis hjólreiðapakkið...


Tökum af þeim ómetið...

Spurt er: Ef íbúar ákveðins borgarhluta eða hverfis eru farnir að þyngjast um of, er þá rétt og gott að taka af þeim skyndibitastaðina.

Þetta er spurning sem yfirvöld Suður Los Angeles hafa spáð í því uggvænlega margir íbúar þess ágæta borgarhluta eru orðnir rúnnaðri en gott og hollt getur talist.  Nú er ég ekki viss um hvort þetta sé gott. Vissulega er heilsuvernd af hinu góða en sennilega á mönnum að vera það í sjálfsvald sett hvort þeir éta á sig óþrif og sjúkdóma. Ekki fárumst við við áhættuhegðun svona almennt nema ef hún stofnar heilsu samborgaranna í hættu (og á ég þar aðallega við reykingar á almannafæri sem eins og skyni gæddir og glöggskyggnir menn vita að eru hættulegar heilsu þess sem ekki reykir - sama hvað frjálshyggjutittir í áhrifastöðum kunna að segja).

Reyndar er ekkert að því að banna skyndibitastaði í fallegum hverfum af fagurfræðilegum ástæðum því þessi fyrirbæri eru jafnan með afbrigðum ljót og ósmekkleg.

Svo er bara að fara að snúa sér að því óæti sem börnum amerískum er boðið upp á í skólum en þau verða og rúnnaðri en gott þykir... 


Meira um almenningssalernadólginn Larry Craig...

Fjölmiðlar hér vestra sem og vandaðir íslenskir bloggarar hafa úr miklu að moða þessa dagana en í dag sagði salernisdólgurinn og öldungadeildarþingmaður repúplíkana, Larry Craig, af sér eftir að upp komst um að hann hafði reynt við dulbúinn löggumann á klósetti á flugvellinum í Minneapolis. Mér er sosum slétt sama hvað fullorðir karlmenn aðhafast á klósettum flugvalla svo lengi sem ég get gengið örna minna í friði. 

Eitt af því kómíska við þetta er að umræddur öldungadeildarþingmaður hefur alltaf haft horn í síðu samkynhneigðra og á m.a. þátt í því að bandaríska hernum væri stætt á því að reka hermenn sem viðurkenndu samkynhneigð sína en slíkt hefur verið gert oftar en einu sinni. Það er því ljóst að væri Craig í hernum, yrði hann nú að taka pokann sinn og það vegna reglugerðar sem hann sjálfur studdi af ákafa.

Annars glotti ég með mér um daginn er ég var látinn þreyta einn af óteljandi "online modules" háskólans en slíkt þurfa nýir starfsmenn oft að gera og er þá um að ræða e.k. kúrsa í góðum rannsóknaraðferðum og skynsamlegri hegðun. Á einni síðunni var vitnað í bók sem út kom 1970 en hefur vafalítið gengið í endurnýjun lífdaga eftir að Craig var böstaður á flugvallarklósettinu. Bókin heitir Tearoom Trade: Impersonal Sex in Public Places og er eftir félagsfræðinginn Laud Humphreys og fjallar um nákvæmlega það sem Craig var að gera á salerninu um daginn. Ætla má að Craig hafi lesið bókina og sótt sér þangað ráð en ekki gert ráð fyrir að reyna óvart við lagana vörð.

Annars finnst mér nú frekar lítilmannlegt af löggunni að grípa karlmenn í karlaleit svona glóðvolga á almenningssalernum og finnst að hún ætti frekar að elta uppi glæpamenn og óþjóðalýð.

Er þessi á náttborðinu hjá Craig?


Hvort fitnum vér enn (eða, you've come a long way baby)...

Þá er bloggfríi lokið, dagurinn farinn að styttast, ég og familían flutt eina ferðina enn og nú aftur til Iowa, þ.e.a.s. langt inn á kornakurinn ógurlega. Hér er fínt að vera.

Annars ætlaði ég ekki að ræða um mig (ekki enn) heldur um vaxandi mittismál landa minna hér vestra. Enn þarf að slaka á beltinu en offita sótti í sig veðrið í 31 ríki BNA síðasta árið. Ekkert ríki grenntist. Sem fyrr fer þá leiðir Mississippi hópinn og náði þeim merka áfanga að verða fyrsta ríkið þar sem meira en 30% eru of feitir (þ.e.a.s. með "body mass index" [BMI] hærri en 30 en BMI er skilgreindur sem BMI = kg / m2). Hver getur líka hreyft sig í Mississippimollunni. Mitt fólk í Iowa stendur sig litlu betur en við erum í 20sta sæti hvað varðar mittismál en mínir fyrri sveitungar í Minnesota voru heldur betur á sig komnir þó þar væri ástandið hreint ekki gott. Coloradobúar eru grennstir og má kannski þakka heilnæmu fjallaloftinu það.

Ástæður þessa eru margvíslegar og sumar hverjar reyfaðar í skýrslunni sem vísað er til að ofan. Það vekur m.a. athygli að 22% Bandaríkjamanna virðast ekki hreyfa sig spönn frá rassi ef marka má könnunnina og er það sennilega vanmat. Flestir hreyfa sig mun minna en mælt er með. Svo étur fólk líka rusl, bæði skólabörn sem fullorðnir.

Það þarf ekki að tíunda áhrif offitu á heilsufar manna en búast má við vaxandi faraldri sykursýki, hjarta- og æðasjúkdóma ásamt slitgigt ef svo heldur áfram og ætla má að sá bagginn verði í orðsins fyllstu merkingu þungur að bera, bæði fyrir einstaklinginn og þjóðfélagið í heild en ætla má að óheyrilegum fjármunum verði varið í meðferð offitutengdra sjúknóma á komandi árum og áratugum.

Hvað kemur þetta okkur við á Íslandi? Heilan helling því við sækjum í sama farið þó enn eigum við langt eftir til að ná Mississippi. But, we've come a long way...

 

Hann borðaði grautinn sinn allan...


FDA krefst þess að framleiðsla vítamína og fæðubótarefna fylgi gæðastöðlum...

Það er alveg stórmerkilegt að þrátt fyrir allt skriffinskubatteríið tengt lyfjum og lyfjaframleiðslu hér vestra, þá hafa framleiðendur vítamína og fæðubótarefna fram að þessu ekki þurft að fylgja neinum stöðlum við framleiðslu sinnar vöru. Nú kann að verða breyting á því en í síðustu viku samþykkti Matvæla- og Lyfjastofnun Bandaríkjanna (U.S. Food and Drug Administration) að herða verulega gæðaeftirlitsólina. Nú er ég ekki á móti fæðubótarefnum þó ekki neyti ég þeirra sjálfur. Ég er hins vegar á móti því að fólki sé selt kartöflumjöl í pilluformi, það kallað einhverju fínu nafni s.s. andoxunarefni, og selt á okurverði.

Þessi lög koma til af illri nauðsyn en upp hefur komist í vaxandi mæli um framleiðendur og seljendur slíkra efna sem ekki hafa einungis verið að selja gagnslaust dót heldur einnig blandað alls kyns óhroða í pillurnar.

The FDA said the new mandate is needed to ensure that products are free of contamination and impurities. Last year, the FDA found that some supplements contained undeclared active ingredients that are used in prescription drugs for erectile dysfunction. In the past, regulators found supplements that did not contain the levels of Vitamin C or Vitamin A that were claimed.

If, upon inspection, the FDA finds that supplements do not contain the ingredients they claim, the agency would consider the products adulterated or misbranded. In minor cases, the agency could ask the manufacturer to remove an ingredient or revise its label. In more serious cases, it could seize the product, file a lawsuit or seek criminal charges.

Heimild: Washington Post

Það er sjálfsagt að maður fái 10g af þurrkuðum leðurblökuvængjum ef maður borgar fullt verð fyrir 10g af þurrkuðum leðurblökuvængjum.

Sérfræðingur í þessum málum sagði mér að einungis skyldi kaupa slík efni frá Þýskalandi því þar þurfa framleiðendur fæðubótarefna að líta sömu lögum og framleiðendur lyfja, þ.e. sjá til þess að belgirnir innihaldi það sem þeir eiga að innihalda. Hvernig skyldi þessum málum háttað á Íslandi?

Hvað skyldi vera í þessum belgjum...? 


Grinderman...

Loksins heyrði maður frá Nick Cave. Ekki er það með hefðbundinni hljómsveit, þ.e. The Bad Seeds heldur er um nýja sveit að ræða, e.k. sprota af fræjunum og kallast sú sveitin Grinderman og hefur gefið út dágóða samnefnda plötu. Hér er um að ræða valinkunnan skrílinn úr fræjunum, þ.e.a.s. þá Warren Ellis, Martyn P. Casey og Jim Sclavunos (en sá síðastnefndi hefur einnig gefið út fína músík með sveit sinni The Vanity Set). 

Grinderman er geysiþétt plata þó vart muni hún teljast meðal hans helstu verka. Rokkuð og beitt með textum sem vart hæfa börnum (eins og það sé eitthvað nýtt úr þessari áttinni). Minnir nokkuð á Abattoir Blues/The Lyre of Orpheus sem kom út um árið. Hrjúf og rokkuð.

 

Grinderman


Eymingja Kormákur...

Maður bara klökknaði við að hlusta á hann. Þetta eru sennilega endalok menningar og heimilisfriðar eins og við þekkjum hann...

Annars var farið með rangt mál er sagt var að veitingahúsaeigendur skoskir hefðu tapað. Það munu helst vera sveitapöbbar og bingóklúbbar sem munu hafa misst spón úr aski sínum en aðrir hafa jafnvel grætt á þessu samkvæmt nýlegri grein í Der Spiegel. Til eru ágætar tölur frá Bandaríkjunum sem sýna að þegar á heildina litið hafa veitingahúsaeigendur engu tapað og sumstaðar jafnvel hagnast á banninu.

Til hamingju Íslendingar.


mbl.is Reykingabann á skemmtistöðum gæti skilið milli feigs og ófeigs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaffi og krabbamein...

Var að kíkja í blöðin. Sá þar grein um kaffi og lifrarkrabba. Svo virðist sem vér kaffidrykkjumenn séum í minni hættu á að fá þann leiða krabba. Sem forfallin kaffisvelgur þá fylgist ég grannt með öllum slíkum kaffivísindum og leiði að sjálfsögðu hjá mér allar þær vísindagreinar sem segja kaffi óhollt.

Þess utan lítur allt út fyrir að vín og dökkt súkkulaði geti bætt mannsins heilsu. Hver veit nema ef maður sameini þetta þrennt, þ.e. kaffi, súkkulaði og vín, þá komist maður hjá því að fara út að hlaupa...

Er kaffi gott fyrir hjartað?

Kári og DeCode í fréttum hér vestra...

Nokkuð hefur borið á Kára okkar Stefánssyni í blöðum hér ytra síðustu dagana og er tilefnið það að hans ágæta gengi hjá DeCode birti grein í Science um erfðir og áhættu á hjartasjúkdómum og geri aðrir betur. Það er erfitt að toppa Science. Bæði NYT og Boston Globe hafa um þetta frétt en reyndar er ekki einungis verið að fjalla um DeCode því aðrir vísindamenn birta svipaðar rannsóknir í sama blaði. Hver veit nema hægt verði að brúka þessa vitneskju til að spá fyrir um hverjir fái hjartasjúkdóm síðar meir. Svo er reyndar spurninginn hvort fólk sé einhverju bættari með þá vitneskjuna en lengi má deila um það hvort slík vitneskja er einstaklingum til góðs. 

Hvað sem öllu líður þá ber að óska Kára og hans ágætu vísindamönnum til hamingju með sérlega vel unna vinnu. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband